Norðurlöndin og Bitcoin
Olíusjóður Noregs er að auka óbeina eign sína í Bitcoin og í Svíþjóð er kallað eftir Bitcoin þjóðarsjóði. Á meðan nágrannar okkar taka stór skref, hvar stendur Ísland?
Áhugaverðir hlutir eru nú að eiga sér stað á Norðurlöndunum. Viðskiptabankar hafa aukið þátttöku sína í rafmyntageiranum á síðustu misserum og nú er umræðan einnig komin á svið stjórnmála og þjóðarhagsmuna. Hinn gríðarstóri olíusjóður Noregs hefur aukið óbeina eign sína í Bitcoin og stjórnmálaflokkar í Svíþjóð kalla nú eftir því að ríkið setji á fót Bitcoin þjóðarsjóð. Þetta vekur upp mikilvægar spurningar um stöðu Íslands í þessu nýja landslagi.

Stærstu tíðindin koma frá Noregi, þar sem Norski olíusjóðurinn, stærsti þjóðarsjóður heims, hefur aukið óbeina eign sína í Bitcoin. Í gegnum fjárfestingar í fyrirtækjum á borð við MicroStrategy jók sjóðurinn stöðu sína um 83% á öðrum ársfjórðungi. Samhliða þessu hefur stjórnarandstöðuflokkur í Svíþjóð formlega kallað eftir því að landið kanni möguleikann á að eiga Bitcoin í þjóðarsjóði, sem væri söguleg pólitísk viðurkenning.

Þessi þróun á stjórnmálasviðinu byggir á grunni vaxandi viðurkenningar í viðskiptalífinu. Bankar á Norðurlöndum, svo sem DNB, Nordnet, Danske Bank og Nordea, hafa þegar hafið að bjóða upp á þjónustu tengda rafmyntum, líkt og kauphallarsjóði (ETPs) og vörslulausnir, til að mæta aukinni eftirspurn viðskiptavina. Þessi fyrsta bylgja innleiðingar hefur fært rafmyntir sem eignaflokk nær almenningi og gefið eignaflokknum aukna viðurkenningu.
DNB hélt rafmyntaráðstefnu í september sem þar sem meðal annars var farið yfir vegferð bankans inn í rafmyntageirann. Einnig hélt Nikolai Gobel, verkefnastjóri í deild stafrænna eigna DNB, erindi um nálgun bankans í fjárfestingum í rafmyntum.

Rafmyntaeign fólks á Norðurlöndum hefur aukist mikið frá síðasta ári skv. skýrslu sem Nordic Blockchain Association (þar sem Viska er meðlimur) og K33 Research.

Það er hins vegar sláandi að sjá muninn á væntingum fólks frá mismunandi löndum innan Norðurlanda á því hvort það telji að það muni eiga rafmyntir á næstu 10 árum. Íslendingar skera sig þar alveg úr í öllum aldurshópum þar sem hlutfall Íslendinga sem telur sig muni eiga rafmyntir í eignasafni sínu næsta áratuginn er miklu lægra en á hinum Norðurlöndunum. Sjá mynd hér að neðan sem sýnir þetta glögglega.

Að öllu framansögðu virðist ljóst að Ísland er eftirbátur annarra Norðurlanda hvað varðar rafmyntageirann. Íslensk stjórnvöld hafa sýnt þessum eignaflokki lítinn áhuga og hafa í raun staðið í vegi fyrir honum með því að hrekja Bitcoin námuvinnslu úr landi. Það eitt og sér er ótrúleg skammsýni enda hefur sú starfsemi hjálpað okkur að nýta orkuauðlindir þjóðarinnar betur á síðustu árum enda eru þeir sem stunda Bitcoin námuvinnslu einu stórnotendur á raforku sem eru tilbúnir að kaupa ótrygga (afgangs) orku. Að sama skapi hafi íslenskir bankar ekki stigið skref inn í rafmyntageirann ennþá og jafnframt hafa lífeyrissjóðir ekki tekið þátt í honum svo vitað sé.
Á meðan önnur Norðurlönd eru farin að taka þátt í þessum mest vaxandi eignaflokki heims virðist Ísland ekki átta sig á þeim tækifærum sem í honum felst. Það væri óskandi að ráðamenn þjóðarinnar færu að vakna til lífsins.