Nýtt greiðsluhagkerfi Google fyrir gervigreind
Í þessari færslu greinum við nýja greiðslukerfið frá Google sem er að búa til fjármálakerfi fyrir vinnuafl gervigreindar í samstarfi við SUI og Coinbase.
Google kynnti í síðustu viku nýja greiðslulausn, Agentic Payments Protocol (AP2), sem markar skref fram á við í þróun sjálfstæðra hagkerfa sem knúin eru áfram af gervigreind. Þessir nýju innviðir, sem eru hannaðir til að gera gervigreindar agents (e. AI agents) kleift að eiga viðskipti sín á milli, eru samstarfsverkefni sem leiðir saman lykilaðila eins og Mysten Labs (SUI), Coinbase, MetaMask og Crossmint.
Kjarnavandinn sem AP2 leysir er einfaldur: gervigreindar agents, sem verða sífellt sjálfstæðari, hafa enga innbyggða leið til að geyma eða skiptast á verðmætum. Þeir geta ekki opnað bankareikninga. Til að leysa þetta hefur Google fengið til liðs við sig lykilaðila úr fjártækni- og rafmyntaheiminum. Með samstarfsaðilum eins og Coinbase, sem sér um vörslu og viðskipti, MetaMask, sem sér um samskipti við rafmyntaveski, og Crossmint, sem einfaldar innleiðingu á stöðugleikamyntum fyrir fyrirtæki, skapar AP2 heildstætt vistkerfi. Með því að samþætta bálkakeðjur getur Google gert þessum aðilum kleift að nota stafrænar eignir fyrir agent-to-agent greiðslur.

Þetta opnar á framtíð þar sem gervigreind getur sjálfstætt greitt fyrir þau gögn, þjónustu og reikniafl sem hún þarf til að ljúka verkefni, og skapar þannig lokað, vélknúið hagkerfi. Þau verkefni sem séð er fyrir að gervigreindar agents muni sinna, eins og að bóka ferðalög, stýra birgðakeðjum og framkvæma viðskipti, eru nákvæmlega þau einföldu störf sem hingað til hafa verið á könnu manna. Þessi þróun er enn eitt skýrt merki þess að sú þróun gervigreindar sem mikið hefur verið rætt um sé að verða að veruleika. Framtíðarstörfin verða hugsanlega ekki mönnuð af nýjum starfsmönnum, heldur af sjálfstæðum agents (hugbúnaði) með sín eigin stafrænu veski.
Fyrir fjárfesta markar þessi samruni gervigreindar og rafmyntainnviða skref inn í nýtt tímabil. Tímabil þar sem bálkakeðjur eru ekki aðeins valkostur við fjármálakerfi fyrir fólk, heldur einnig grundvallarkerfi fyrir vaxandi, sjálfstætt vinnuafl gervigreindar. Samstarf tæknirisa eins og Google við marga lykilaðila í fjártækni er fyrirmyndin að þessari framtíð, þar sem veruleg efnahagsleg umsvif gætu innan skamms verið framkvæmd af aðilum sem ekki eru menn.