Orka og innviðir knýja áfram gervigreindarbyltinguna
Í þessari færslu greinum við fjárfestingabylgjuna í gervigreind og rökstyðjum af hverju raunverulegu tækifærin liggja ekki í hugbúnaði, heldur í þeim áþreifanlegu innviðum sem knýja hann áfram.
Á heimsvísu stendur yfir gríðarleg fjárfestingabylgja sem beinist ekki eingöngu að gervigreindarlíkönum (AI models), heldur að þeirri orku og þeim orkuinnviðum sem knýja þau áfram. Hröð uppbygging gagnavera sýnir svart á hvítu að eftirspurn eftir orku og innviðum mun aukast verulega á næstu árum.

Umfang þessarar uppbyggingar eykst hratt vegna harðnandi samkeppni. Tæknirisar á borð við Microsoft, Google, Meta og Oracle verja nú tugum milljarða dollara í að stækka gagnaver sín um allan heim til að anna þeirri gríðarlegu reikniþörf sem nútíma gervigreind krefst. Þetta er nánast orðið innviðakapphlaup. Fjármagnið streymir í áþreifanlegar eignir: netþjóna, kælikerfi og það gríðarlega magn orku sem þarf til að reka þau.

Þessi þróun hefur nú náð út fyrir tæknigeirann. Risar í fjármálaheiminum eins og BlackRock eru farnir að hasla sér völl, eins og nýleg 700 milljóna dollara fjárfesting þeirra í breskum gagnaverum sýnir. Þessi þróun gefur til kynna að innviðir gervigreindar séu ekki lengur einungis á könnu tæknifyrirtækja heldur séu þeir nú viðurkenndir sem mikilvægur, sjálfstæður eignaflokkur af stærstu fagfjárfestum heims. Sérhæfð fyrirtæki hagnast einnig, en fyrirtæki á borð við EcoDataCenter hafa sótt sér hundruði milljóna evru fjármögnun til að styðja við eigin vöxt.

Tilkynning OpenAI um „Stargate“ verkefnið gefur vísbendingu um hið gríðarlega umfang framtíðareftirspurnar. Áætlunin, sem gerir ráð fyrir byggingu fimm gervigreindar gagnavera með áætluðum kostnaði sem gæti farið yfir 500 milljarða dollara á næstu fjórum árum, er margfalt stærri en þær fjárfestingar sem við höfum séð hingað til. Hún staðfestir að núverandi fjárfestingabylgja er ekki tímabundin bóla, heldur upphafið að langtíma uppbyggingu.

Þessi gríðarlega fjárfesting hefur fyrirsjáanlegar afleiðingar og leiðir til verulegrar aukningar í eftirspurn eftir grunnstoðum tæknihagkerfisins: orku, orkuinnviðum og hrávörum. Hjarta hvers gagnavers er flókið net vélbúnaðar sem krefst bæði mikillar orku og stöðugs framboðs á lykilhráefnum á borð við kopar, stál og sjaldgæfra málma. Fjárfestingar risafyrirtækja á borð við Microsoft og BlackRock, ásamt áætluðum hundruðum milljarða dollara í verkefni eins og Stargate, eru í raun skýr langtíma eftirspurnarmerki fyrir þessar hrávörur og innviði. Fyrir fjárfesta er þetta mikilvægt, á meðan virði einstakra gervigreindarfyrirtækja getur sveiflast til skamms tíma, er eftirspurnin eftir orku, orkuinnviðum og hráefnum sem knýja tæknina áfram miklu stöðugri og dýpra tengd inn í raunhagkerfið.