Vanguard snýr við blaðinu og opnar fyrir rafmyntir
Síðasta vígið er fallið. Vanguard, sem stýrir yfir 11.000 milljörðum Bandaríkjadala, hefur nú í fyrsta sinn opnað fyrir að viðskiptavinir fyrirtækisins geti fjárfest í rafmyntasjóðum.
Vanguard, næststærsti eignastýringaraðili heims, hefur opinberlega snúið við blaðinu varðandi afstöðu sína til kauphallarsjóða (ETF) fyrir rafmyntir. Frá og með deginum í gær geta viðskiptavinir átt viðskipti með Bitcoin og Ethereum sjóði á vettvangi þeirra. Þetta markar mikinn viðsnúning frá því snemma árs 2024, þegar fyrirtækið lýsti því yfir að rafmyntir “samræmdust ekki” langtíma fjárfestingarstefnu þeirra og lokaði á aðgang á meðan samkeppnisaðilar eins og BlackRock og Fidelity tóku geiranum opnum örmum.
Hvers vegna þessi skyndilega stefnubreyting?
Ákvörðunin virðist drifin áfram af bláköldum viðskiptahagsmunum og óttanum við að missa af lestinni varðandi mest vaxandi eignaflokk áratugarins, fremur en hugmyndafræðilegri breytingu. Gögn frá Bloomberg og Morningstar bentu til þess að Vanguard væri að tapa fjármagni til samkeppnisaðila sem buðu upp á aðgang að rafmyntasjóðum. Með því að viðhalda banninu var Vanguard í raun að neyða viðskiptavini til að færa fjármagn annað til að fá hlutdeild í þeim eignaflokki sem hefur skilað bestri ávöxtun síðasta áratuginn.

Bitcoin sjóður orðinn stærsta tekjulind BlackRock
Nýlega var fjallað um að Bitcoin sjóður BlackRock, iShares Bitcoin Trust eða IBIT, skili nú BlackRock mestum tekjum allra kauphallarsjóða félagsins. Tekjur BlackRock af IBIT er nú orðnar meiri en tekjur af S&P 500 kauphallarsjóði félagsins, Core S&P 500 ETF (IVV), sem hefur verið flaggskip fyrirtækisins í yfir aldarfjórðung og er með sjöfalt meiri eignir en IBIT. Til samanburðar er IBIT ekki einu sinni orðinn tveggja ára gamall. Þetta eru tölur sem tala sínu máli.
Það má ímynda sér umræðurnar í stjórnarherbergi Vanguard þegar helsti samkeppnisaðilinn nær að búa til nýja og stóra tekjustoð með því að taka þátt í nýjum eignaflokki. Til viðbótar við það þá eru sífellt fleiri viðskiptavinir að krefjast þess að fá aðgang að þessum vaxandi eignaflokki sem rafmyntir eru.
Markaðsveruleikinn hafði betur
Þessi viðsnúningur er skólabókardæmi um hvernig íhaldssöm og risavaxin fyrirtæki geta reynt að standast breytingar en á endanum verða þau að lúta lögmálum markaðarins. Þegar eignastýringarrisi með yfir 11.000 milljarða dollara í stýringu, sem hafði sett orðspor sitt í veði með opinberri andstöðu við rafmyntir, neyðist til að snúa við blaðinu þá er ljóst að eftirspurn neytenda hefur unnið hugmyndafræðistríðið.
Fyrir stóra eignastýringaraðila er útilokun rafmynta ekki lengur raunhæf stefna. Nú er einfaldlega fýsilegra að bjóða upp á þessar vörur en að loka á þær.





